Rými fyrir ófullkomna íslensku?

Síðastliðið sumar fékk ég skilaboð frá íslenskri konu á Facebook-síðu mína um færslu sem ég hafði sett inn á bloggið mitt. Í skilaboðunum sagði konan: „Færslan þín er nokkuð góð. En þú ætti að láta einhvern lesa yfir íslenskuna þína“.
Konan gaf mér þetta ráð án efa í fullri einlægni og meinti þetta ekki sem gagnrýni. Engu að síður svaraði ég henni: „Ég ber ábyrgð á því sem ég segi á blogginu mínu á ófullkominni íslensku minni“. Raunar móðgaðist ég talsvert en af hverju?

Ég skrifa oft greinar í dagblöð og á vefsíðu (ekki bloggsíðu), ef til vill oftar en tuttugu sinnum á ári. Þá held ég ræður á opinberum vettvangi eins og í messum um tíu sinnum á ári. Í hvert einasta af þessum skiptum fara íslenskir vinir mínir yfir uppköst greina minna og predikana, prófarkalesa og laga til íslenskuna. Þeir vinna þessi verkefni í sjálfboðavinnu og hef ég aldrei þurft að greiða fyrir þessa aðstoð.
Stundum þarf ég að biðja þá um að lesa yfir með mjög stuttum fyrirvara eins og þegar ég þarf að bregðast við einhverjum fréttum. Ég lít alls ekki á þessa aðstoð sem sjálfsagt mál og þakka vinum mínum innilega fyrir.

Mér finnst eðlilega krafa að þær greinar sem við innflytjendur, sem ekki eigum íslensku að móðurmáli, sendum inn í dagblöð eða ræður sem við flytjum eigi að vera yfirlesnar. Undantekningin er hins vegar þegar við tökum þátt í sjónvarps- og útvarpsútsendingum, þar sem ekki er hægt að leiðrétta mál okkar fyrirfram. Íslenska fyrstu kynslóðar innflytjenda á Íslandi verður sjaldnast fullkomin en það má ekki koma í veg fyrir að við tjáum okkur á opinberum vettvangi og samfélagsmiðlum.

Mikilvægi aðstoðar í yfirlestri

Allavega skil ég alveg nógu vel mikilvægi þess að fá yfirlestur þegar ég skrifa grein sem ég ætla í dagblað eða þegar um predikun er að ræða. Ég þarf enga fræðslu um það atriði. Og ég ítreka þakklæti mitt í garð þess fólks sem aðstoðar mig.

En ef ég má segja í hreinskilni, getur það verið líka þreytandi og pirrandi að ég geti ekki sagt eitthvað án þess að fara gegnum yfirlestur og ég sé jafn háður aðstoð annars fólks og raun ber vitni. Ég blogga einnig á japönsku fyrir vini mína í Japan og það uppfæri ég tvisvar í hverri viku.
Auðvitað þarf ég þarna enga aðstoð frá neinum og ég get klárað færslu 100 prósent sjálfur. Sama er að segja þegar Íslendingar skrifa á íslensku. En það á ekki við um mig, og ef til vill flesta innflytjendur líka, ef um íslensku er að ræða.

Þó að við innflytjendur stuðlum að íslenskunámi, munu örfáir geta tileinkað sér íslenskuna eins og innfæddir Íslendingar. Meira eða minna notum við innflytjendur „sæmilega“ eða „skiljanlega“ íslensku daglega. Og ritmálið okkar þarf að vera yfirlesið ef það á að birtast á opinberum vettvangi. Ég mótmæla því ekki.

Rými fyrir„ófullkomna íslensku“

En telst bloggsíða eða samskiptamiðlill eins og Facebook til opinbers vettvangs? Eða eru þau einkavettvangur? Ég held að bloggsíða eða Facebook tilheyri gráu svæði milli opinbers vettvangs og einkavettvangs. Innihald og tjáning á þeim á að fylgja opinberum reglum, en hins vegar þurfa bæði innihaldið og tjáningin ekki að vera opinberlegs eðils. Þau mega vera prívat. Og þetta er einn munurinn á milli bloggs og dagblaðs/fréttasíðu á netinu.

Ég ákvað þegar ég byrjaði að blogga að gera það á íslensku án yfirlesturs. Fyrst og fremst get ég ekki ónáðað vini mína vegna yfirlesturs á hverri einustu færslu á bloggið. Og einnig held að ég hafi rétt til að nota íslenskuna sem ég er að læra. Annars tek ég engum framförum í málinu.

Bloggið er mjög gott tæki til að prófa eigin íslensku og reyna að halda í samskipti við Íslendinga. Fólk sem þolir ekki að lesa ófullkomna íslensku, neyðist ekki að skoða bloggsíðu mína. Fólk sem er frekar forvitið um hugmyndir eða reynslusögur sem ég deili á síðunni, er velkomið.

Mér finnst gaman að læra íslensku og því tek ég gjarnan á móti ábendingum og leiðréttingum. En ég þoli samt illa að vera leiðréttur málfræðilega í hvert einasta skipti þegar ég set færslu inn á bloggið mitt eða að vera bent á að ég ætti að láta lesa íslenskuna mína yfir. Mér finnst það persónulega vera, jafnvel þótt það sé vel meint, of mikil afskiptasemi og geta almennt dregið kjark úr innflytjendum.

Ég óska þess að Íslendingar sýni umburðarlyndi á bloggi og Facebook-síðum okkar innflytjenda, þar sem íslenskan er ófullkomin, og reyni að skilja innihald þess sem við höfum fram að færa. Það mikilvægt fyrir innflytjendur að eiga þar rými til að nota okkar ófullkomnu íslensku og ég trúi því að þetta sé Íslendingum einnig í hag þegar til lengri tíma er litið.

(Prestur innflytjenda, 8. febrúar 2014 Mbl.)

css.php