Sjálfsmynd okkar í fjölmenningarlegu samfélagi

Hvað er að vera Íslendingur í fjölmenningarlegu samfélagi? Hver er sú heimspekilega hugsjón sem býr að baki uppbyggingu fjölmenningarlegs samfélags? Hugsum málið. Til að svara þessum spurningum skulum við byrja á því að líta á mannkynið á 21. öld og spyrja hvert það stefnir næstu hundrað árin.

Við getum lært ýmislegt með því að horfa á mynd af jörðinni okkar, sem sést utan úr geimnum.Mig langar til að benda á tvö atriði sem vöktu athygli mína þegar ég virti mynd jarðarinnar fyrir mér, og þau mynda jafnframt hugsjónir mínar um grunn fjölmenningarlegs samfélags.

Takmörkun mannkyns

Í fyrsta lagi sjáum við þar takmörkun mannkyns. Við skiljum betur tímann sem við lifum og staðinn sem okkur var gefinn. Jörðin er núna stór örk fyrir okkur mannkynið og við getum ekki flúið þaðan. Við eigum engan annan kost en að búa saman og ferðast saman með örkinni okkar sem jörðin er. Allt sem varðar framtíð mannkyns verður að byggjast á því að við viðurkennum þetta.

Í gamla daga var hægt að flýja og flytja til annarra staða. Sagan um Móses og brottför Ísraelsþjóðarinnar frá Egyptalandi, er dæmi um slíkt og hún felur í sér ákveðna “aðskilnaðarstefnu”. Í aðskilnaðarstefnu getur tiltekinn hópur, sem er með ákveðið gildismat innan hópsins, forðast að mæta öðruvísi gildismati og flúið í einangrun. Aðskilnaðarstefna getur verið hættuleg, af því að þar mætir fólk ekki öðruvísi gildum en sínum eigin og lætur sem eigið gildismat sé fullkomið og takmarkalaust. Þetta er ein birting skurðgoðadýrkunar. En í nútímanum er afar erfitt að halda slíkri skurðgoðadýrkun án árekstrar við aðra.

Næstu hundrað ár verða, að mínu mati, að byggja frekar á hugmynd hvítasunnunnar. Það er dagur þegar fólk byrjar að tala og heyra mörg ókunnug tungumál eins og segir frá í Nýja Testamentinu. Þar er það táknað sem andstæða aðskilnaðarhugmyndar. Það er hugmynd um blöndun og gagnkvæma aðlögun og von um uppbyggingu jákvæðrar fjölbreytni. Ég kalla þetta “sambúðarstefnu. Tveir eða fleiri ókunnugir mætast, og lyfta tilveru sinni á hærra plan, með því að gera hið óþekkta þekkt. Ef mannkynið á að þroskast á einhvern hátt tel ég að það hljóti að vera á þennan hátt.

Takmörkun hvers og eins gildis

Annað atriði sem við lærum af mynd jarðarinnar er að aðgreina ómissandi þætti í tilveru okkar frá því sem við getum verið án. Á mynd af jörðinni frá geimnum, sjást engin landamæri. Jörðin er ein kúla án allra lína til að aðskilja eitt svæði frá öðru. Við erum svo vön því að sjá landamæri á heimskorti og við trúum næstum því að landamæri séu dregin á jörðinni í alvöru. En það er bara ímyndun okkar. Jörðin án landamæra er tákn um aðgreiningu milli þess sem er endilega ómissandi fyrir mannkyn og þess sem hefur aðeins takmarkað gildi fyrir okkur. Takmarkað gildi er líka mikilvægt en það er mikilvægt að viðurkenna takmörkun hvers og eins gildis í kringum okkur. Landamæri eru mikilvæg og nauðsynleg, en þau mega aldrei stjórna örlögum mannkyns. Hið sama gildir um þjóðerni, ríkisborgararétt, tungumál eða tiltekinn meningarheim. Þetta er allt mjög mikilvæg og fólk á skilið að við tökum þessi mál alvarlega til umræðu. Samt tilheyrir þetta ekki hinum takmarkalausu gildum og því megum við ekki gleyma.

Virkari vitund um sjálfsmynd

Að lokum vil ég reyna að tengja þessa hugsjón við hugmyndina um “hvað er að vera Íslendingur”. Hverjir eru Íslendingar? Þegar við spyrjum þessarar spurningar, reynum við auðvitað að aðskilja Íslendinga frá útlendingum. Íslendinagar eru tiltekinn hópur manna í heiminum, sem einkennist af íslensku tungumáli, sameiginlegri sögu eða ýmsum þjóðernistengdum atriðum. Að hugsa um sjálfsmynd Íslendinga á þennan hátt er hefðbundin aðskilnaðarstefna. Eins og ég er búinn að segja áðan, finnst mér þetta ekki passa alveg á 21. öldinni. Að aðskilja Íslendinga með menningarleg einkenni er kannski aðeins helmingur skilgreiningar um Íslendinga. Hinn helmingurinn snýr að því hvernig Íslendingar koma útlendingum fyrir sjónir, sem sagt atriðið sem varðar sambúðarstefnu. Sú hlið, þar sem Íslendingar skilgreina sjálfa sig í samhengi við viðhorf sín til útlendinga, er ómissandi hluti sjálfsmyndarmótunar Íslendinga. Sjálfsmynd okkar, hvort sem hún er Íslendinga eða Japana, getur ekki verið aðskilin frá samhengi við aðra á jörðinni.

Þetta er virkari vitund um sjálfsmynd sína. Það er ýmislegt sem er sérstakt á Íslandi, margt sem er yndislegt hjá Íslendingum. Fallegt tungumál, stéttlítið samfélag, rúmgott land, hrein náttúra, o.fl. Hvernig ætla Íslendingar að nota þessi einkenni til að auðga aðra íbúa á jörðinni? Ég met það mikilvægt sem hluta sjálfsmyndar Íslendinga. Það er vissulega verkefni, sem aðeins Íslendingar geta sinnt. Hvað um t.d. náttúrvernd? Hvernig skilja Íslendingar fegurð náttúru landsins? Hún er forréttindi og séreign Íslendinga. Hver hefur þá sérábyrgð á henni? Mörg lönd í heiminum eru búin að eyðileggja og týna fegurð náttúru sinnar vegna iðnaðarstefnu. Íslendingar geta sýnt þeim dýrmæti náttúrunnar og það mun vera eitt af því mikilvæga sem eingöngu Íslendingar geta sinnt.

Slík virk samskipti við aðra jarðarbúa á að teljast til sjálfsmyndar hverrar og einnar þjóðar á jörðinni, ekki síst til sjálfsmyndar Íslendinga, á 21.öld. Þannig birtist sambúðarstefna í fjölmenningarlegu samfélagi.

(Prestur innflytjenda, 20. aoríl 2003 Mbl.)

css.php