Skaðar fjölmenningarlegt samfélag íslenska menningu?

“Ísland er smáþjóð og þess vegna verða Íslendingar að halda fast í menningu sína”, “Ef við töpum íslenskri tungu þá týnumst við í heiminum”. Þetta eru sjónarmið sem ég heyri oft sem andsvar við hugmyndum um kosti þess að Ísland verði að fjölmenningarlegu samfélagi. Ótti við að íslensk menning skaðist í fjölmenningarlegu samfélagi virðist vera tiltölulega algengur á meðal Íslendinga. Eru slíkar áhyggjur skynsamlegar? Hugsum málið.

Sjálft hugtakið menning er mjög víðtækt og óskýrt en hér ætla ég að benda á þrjú atriði sem eru nátengd hverri menningu, þ.e. tungumál, trúarbrögð og tækninýjungar.

1. Tungumál

Skoðum íslenska tungu út frá fjölmenningarlegum sjónarmiðum. Það gætir mikils misskilnings hvað þetta málefni varðar.

Íslenska verður áfram opinbert tungumál á Íslandi þrátt fyrir að íslensk þjóð verði fjölmenningarleg. Innflytjendur sem hyggjast setjast að hér á landi munu verða mjög hvattir til að læra íslensku. Ég þekki mjög fáa innflytjendur sem ekki vilja eindregið læra íslensku. Tungumálakunnáttan skiptir miklu máli og við vitum það vel. Hins vegar þekki ég marga útlendinga sem eru í slæmri aðstöðu til að stunda nám í íslensku. Ástæður geta verið fjölskylduaðstæður eða fjármál o.fl. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að móta betri stefnu um íslenskunám fyrir innflytjendur. Ég get ekki farið nánar út í ákveðna stefnu hér, heldur langar mig til að benda á eftirfarandi atriði.

Í fyrsta lagi tekur það langan tíma fyrir innflytjanda að tileinka sér íslensku sem lifandi tungu. Hann getur líklega aldrei náð jafnri leikni og innfæddur Íslendingur. Samt sem áður er hann jafn mikill íbúi landsins og aðrir. Þetta er staðreynd sem bæði innflytjendur og Íslendingar þurfa að viðurkenna. Að mínu mati eru það Íslendingar sem þurfa að íhuga þetta enn frekar.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að bæta þjónustu fyrir þá innflytjendur sem hafa enn ekki tileinkað sér íslenskt mál. Það þarf t.d. að bæta túlkaþjónustu hjá opinberum stofnunum á landsbyggðinni og veita upplýsingar á fleiri tungumálum en íslensku. Sérstaklega finnst mér að fjölmiðlar ættu að sýna meiri skilning með því t.d. að birta efni á ensku. Hvað er athugavert við að taka frá tiltekið rými í fjölmiðlunum og birta þar efni á ensku? Þannig væri hægt að ná til útlenskra íbúa og um leið veita þeim meiri hlutdeild í þjóðfélaginu. Efnið gæti t.d. verið varðandi ráðningarauglýsingar eða almenna umræðu sem varðar líf innflytjenda.

Í þriðja lagi talar önnur kynslóð innflytjenda góða íslensku. Það er aðeins fyrsta kynslóð sem talar sæmilega íslensku. Hafa þeir í alvöru slæm áhrif á íslenska tungu? Það held ég ekki. Hættan sem stafar að íslensku máli er fyrst og fremst komin frá yngri kynslóðum Íslendinga sjálfra. Hreintungustefna, ef hún er enn gild í þjóðfélaginu, skal miðast við að kenna yngri kynslóðum að varðveita tunguna sína og einnig að bera jafn mikla virðingu fyrir öðrum tungum. Það er út í hött að þjóðin krefjist þess að innflytjendur læri þessa erfiðu tungu fullkomlega um leið og innfæddir Íslendingar sjálfir vanrækja viðleitni til að varðveita tunguna.

2. Trúarbrögð

Ég er þjónandi prestur þjóðkirkjunnar, en mér finnst samt mikilvægt að viðurkenna mismunandi trúarbrögð í þjóðfélaginu og tryggja trúarlíf fólks í reynd. Óskir um samræðu á milli trúarbragða má nú glöggt greina á meðal starfsfólks heilbrigðisþjónustu. Ég sé slíkt sem gott dæmi um að þjóðin er að verða að fjölmenningarlegu samfélagi. Mismunandi trúarbrögð eru alls ekki óvinir eða hætta við kristna trú. Þvert á móti eru þau eins og spegill fyrir okkar kristnu kirkju til að sjá sjálfa sig betur. Með því að kynnast öðruvísi trúarbrögðum fáum við tækifæri til að endurskoða okkar eigin trú og staðfesta hana. Líkt og með tungumálið er hættan sem stafar að kristinni trú komin frá kirkjunni sjálfri, ekki síst frá sjálfsánægju hennar sem er að sumu leyti afleiðing þess að kristni á sér 1000 ára sögu á Íslandi. Hlutverk þjóðkirkjunnar er enn stór, en samt breiðist vanhelgun mikið út í þjóðfélaginu. Að mínu viti er vanhelgun merki þess að trú er að ýmsu leyti orðin að innantómum siðum sem hafa ekki raunverulega þýðingu í lífi fólks. Samræða við önnur trúarbrögð er gott tækifæri fyrir þjóðkirkjuna til að endurmeta sjálfsmynd sína. Að þessu leyti er trúarleg fjölhyggja í þjóðfélagi blessun Guðs.

3. Menningarlegar hefðir og tækninýjungar

Ísland er nú vel þekkt í Japan sem þjóð sem er háþróuð í notkun farsíma og netkerfa. Það er e.t.v. erfitt að finna einhvern einstakling sem er ekki með farsíma á Íslandi.

Spurningin er þá; teljast þessar tækninýjungar til íslenskrar menningar? Auðvitað eru þessar tækninýjungar hvergi í heiminum hluti af hefðbundinni menningu. Það er eðli tækninýjunga að þær færa menningu eitthvað sem ekki var áður til staðar. Með ógnar hraða byrja þær að skipta miklu máli í þjóðfélainu. En eru þessar nýjungar alltaf til góðs?

Mér finnst meira áríðandi fyrir Íslendinga að íhuga samruna hefðbundinnar menningar og samtímalegra tækninýjunga en að líta fjölbreytni í þjóðfélaginu hornauga. Tækninýjungar færa þjóðfélagi þægindi en þær geta einnig orðið að skrímsli sem eyðileggur margar af hefðum mannkynsins.

Engin menning er óbreytanleg ef við skoðum hana yfir langt tímabil. Við getum ekki komið í veg fyrir að þjóðir heims verði fjölmenningarlegar. Við getum heldur ekki neitað að notfæra okkur tækninýjungar. Það sem við getum hins vegar gert er að setja alltaf skynsamleg takmörk og reyna þannig að beina samfélaginu í rétta átt.

Eins og kemur fram hér að ofan sé ég enga ástæðu til að hafa áhyggjur af framtíð Íslands vegna aukinnar fjölbreytni í þjóðfélaginu. Fjölmenningarlegt samfélag skaðar ekki íslenska menningu.Alvarlegra mál til íhugunar um menningu er hins vegar hvernig Íslendingar, bæði innfæddir og innflytjendur, læra að notfæra sér alls konar nýjungar í þjóðfélaginu á skynsamlegan hátt. Hvað þetta varðar stöndum við öll í sömu sporum.

(Prestur innflytjenda, 15. júlí 2001 Mbl.)

css.php